Nú á nýju ári langar mig að festa nokkur orð á blað. Eða öllu heldur á skjá, nema þú hafir mögulega prentað út internetið og sért að lesa þetta af blaði. Það hefur lengi staðið til hjá mér að skrifa meira og ég ætla að láta á það reyna núna. Bæði langar mig til að deila með öðrum því sem ég er að pæla og vesenast í frá degi til dags, en líka til að hjálpa mér hreinlega að muna hvað ég var að gera og hvenær. Það er líka mikil hugleiðsla í því að koma hugsunum sínum í orð. Ég mun skrifa um prívat- og fjölskyldumálefni á íslensku, en tæknilegri póstar um verkefnin mín munu alla jafna vera á ensku. Ætla þó ekki að koma með neinar yfirlýsingar um hversu oft ég skrifa, því það mun líklegast falla um sjálft sig. Kannski verður þetta fyrsti og síðasti pósturinn hér og bið ég ykkur því að lesa hann vel og rækilega, jafnvel vikulega, ef svo verður.

Í stuttu máli var árið 2018 var mjög viðburðaríkt hjá mér, og ætla ég að stikla á því stærsta hér.

Það sem bar hæst var fæðing Kötlu, frumburðar okkar Hildar, en hún fæddist þann 30. apríl. Ég hef heldur aldrei haft jafnmikið að gera og á árinu sem leið, en um miðbik árs þurfti ég aðeins að trappa það niður og breyta áherslunum hjá mér í verkefnavali. Fór til Skotlands, Sviss, Ítalíu, Hollands, Slóvakíu og svo tvisvar til Englands, að spila á tónleikum, fjölskyldufrí, hélt fyrirlestur á Dutch Design Week og chillaði með Kötlu meðan Hildur lærði meðgöngujóga (þetta var þó ekki allt í sömu ferð).

Við Ólafur Arnalds settum punkt við okkar samstarfsverkefni, Stratus píanóin sem eru tvö tölvustýrð píanó sem virka sem vélrænn meðleikari, en við sýndum þau sem innsetningu í Hörpu í Reykjavík og University of Arts í London. Auk þess spila þau stórt hlutverk á nýútkominni plötu Ólafs, re:member. Hlakka til að fylgja þeim eftir og sjá hver næstu skref í því samhengi verða.

Ég hef einnig unnið talsvert í minni eigin tónlist en til stendur að gefa út hluta veftónverksins míns Poco Apollo á plötu nú á þessu ári. Þá hefur hljómsveitin Sykur staðið í ströngu við að klára breiðskífu okkar sem marga er farið að lengja eftir, þ.á.m. okkur. Við vorum svo heppin að fá tvo styrki sem við sóttum um og þeir nægja okkur til að klára framleiðslu á plötunni.

Svo kynntist ég líka fullt af frábæru fólki, bæði hérlendis og erlendis, sem ég er í miklum samskiptum við og gæti ekki verið heppnari með það. Sumum kynntist ég enn betur sem ég þekkti áður. En svo eru aðrir sem maður heyrir sjaldnar í en þegar það gerist þá er þráðurinn einfaldlega tekinn upp þar sem frá var horfið. Ég get ekki lýst því hvað það er mér mikils virði að hafa svona mikið magn af frábæru fólki í kringum mig. Án ykkar væri ég ekki neitt. Þið vitið vel hver þið eruð!

Hildur er komin með vinnu sem hjúkrunafræðingur og fyrsti vinnudagurinn er á morgun, en þegar hún er í vinnunni munum við Katla vera að chilla heima. Við ætlum að sjá hvernig það gefst að ég bregði mér í hlutverk dagmóður, en þar sem ég er sjálfstætt starfandi get ég leyft mér að til dæmis vinna þá mína tíma frekar þegar Hildur er ekki á vakt.

Það er margt á radarnum næstu vikur og ég er svo spenntur að segja ykkur betur frá því. Meira næst!

H